Reglur gegn mismunun

Skuldbinding okkar varðandi aðild og virðingu

Airbnb er í eðli sínu opið samfélag sem miðar að því að færa íbúa heimsins nær hverjum öðrum með því að efla innihaldsrík samskipti fólks alls staðar að úr heiminum. Samfélag okkar samanstendur af milljónum einstaklinga sem eru íbúar nærfellt allra landa heimsins. Þetta samfélag er ótrúlega fjölbreytt og þar kemur saman fólk sem tilheyrir ólíkri menningu og hefur misjöfn gildi og viðmið.

Airbnb samfélagið hefur skuldbundið sig til að skapa heim þar sem fólk af ólíku bergi brotið upplifir að það sé velkomið og það virt, hversu langt í burtu sem það ferðast. Skuldbindingin hvílir á tveimur meginreglum sem eiga við gestgjafa og gesti Airbnb: aðild og virðingu. Við deilum þessum meginreglum þannig að allir meðlimir samfélags okkar upplifi að þeir séu velkomnir á verkvangi Airbnb hver svo sem í hlut á, hvaðan sem fólk kemur, hver sem trú þess er eða hvert ást þeirra beinist. Airbnb kannast við að sum lögsagnarumdæmi heimila eða krefjast mismununar milli einstaklinga á grundvelli þátta eins og þjóðernis, kyns, hjúskaparstöðu eða kynhneigðar og krefst þess ekki að gestgjafar brjóti landslög eða grípi til aðgerða sem gætu verið refsiverðar. Airbnb mun veita viðeigandi leiðsögn og breyta stefnu sinni gegn mismunun þannig að hún endurspegli heimildir og ákvæði lögsagnarumdæma sem við eiga.

Þó að við teljum ekki að eitt fyrirtæki geti krafist samhljóms meðal alls fólks teljum við eigi að síður að Airbnb samfélagið geti stuðlað að samkennd og skilningi milli ólíkra menningarheima. Við höfum öll helgað okkur því að gera allt sem við getum til að útrýma öllum tegundum ólögmætrar hlutdrægni, mismununar og fordóma af verkvangi okkar. Við viljum efla menningu innan Airbnb samfélagsins, meðal gesta, gestgjafa og fólks sem er rétt að íhuga hvort það vill nota verkvang okkar, þar sem við gerum meira en bara sýna fylgispekt við lagabókstafinn. Þess vegna samþykkjum við öll, starfsfólk Airbnb, gestgjafar og gestir að lesa og breyta í samræmi við eftirfarandi stefnu svo að samfélag okkar megi eflast og markmið okkar nái fram að ganga, þess efnis að tryggt verði að allir upplifi að þeir tilheyri samfélagi okkar og upplifi sig velkomna alls staðar.

 • Aðild – Við bjóðum gesti velkomna, hver sem bakgrunnur þeirra er, af sannri gestrisni og með opnum huga. Þegar fólk skráir sig á Airbnb, hvort sem það er sem gestgjafi eða gestur, gerist það hluti af samfélagi þar sem aðild allra er jöfn. Hlutdrægni, fordómar, kynþáttahyggja og hatur eiga ekki heima á verkvangi eða samfélagi okkar. Þó að áskilið sé að gestgjafar fylgi öllum viðeigandi lögum sem banna mismunun á grundvelli þátta eins og kynþáttar, trúar, þjóðernisuppruna og annarra þátta sem taldir eru upp hér að neðan, er markmið okkar að gera meira en að sýna fylgispekt við þær lágmarkskröfur sem okkur eru settar í lögum.
 • Virðing – Við sýnum hverju öðru virðingu í samskiptum og viðskiptum. Airbnb tekur tillit til þess að landslög og viðmið eru breytileg eftir heimshlutum og fer fram á það við gesti og gestgjafa að þeir virði landslög og komi fram af virðingu þó að um sé að ræða skoðanir sem endurspegla ekki hugmyndir og uppeldi viðkomandi. Meðlimir Airbnb samfélagsins gera það ótrúlega fjölbreytt hvað varðar bakgrunn, skoðanir og siði. Með því að tengja saman fólk af ólíkum uppruna eflir Airbnb skilning á því sammannlega sem allt fólk deilir með sér og grefur undan fordómum sem eiga rætur sínar í misskilningi eða röngum upplýsingum.

Sérstakar leiðbeiningar fyrir gestgjafa innan Bandaríkjanna og Evrópusambandsins

Almennt séð munum við kynna okkur öll viðeigandi alríkislög og ríkislög sem varða húsnæði og opinber gistirými. Gestgjafar ættu að hafa samband við notendaþjónustu Airbnb ef einhverjar spurningar vakna varðandi skuldbindingar þeirra er tengjast þessari stefnu Airbnb gegn mismunun. Airbnb mun birta frekari leiðsögn innan skamms um stefnu gegn mismunun hvað varðar lögsagnarumdæmi utan Bandaríkjanna. Í samræmi við þessa stefnu munu gestgjafar í gestgjafasamfélagi okkar innan Bandaríkjanna og Evrópusambandsis fylgja þessum reglum þegar þeir íhuga mögulega gesti eða taka á móti gestum:

Kynþáttur, litaraft, uppruni, þjóðerni, trúarbrögð, kynhneigð, kynvitund eða hjúskaparstaða

 • Gestgjafar á Airbnb mega ekki
  • Hafna gesti byggt á kynþætti, litarafti, uppruna, þjóðerni, trúarbrögðum, kynhneigð, kynvitund eða hjúskaparstöðu.
  • Setja önnur skilyrði eða skilmála byggt á kynþætti, litarafti, uppruna, þjóðerni, trúarbrögðum, kynhneigð, kynvitund eða hjúskaparstöðu.
  • Birta skráningu eða koma með nokkra yfirlýsingu er dregur úr gestum eða virðist sýna að óskað sé fremur eða síður eftir gestum á grundvelli kynþáttar, litarafts, uppruna, þjóðernis, trúarbragða, kynhneigðar, kynvitundar eða hjúskaparstöðu.

Kyn

 • Gestgjafar á Airbnb mega ekki
  • Hafna því að leigja gesti á grundvelli kyns nema að gestgjafinn deili rými með gestinum (til dæmis baðherbergi, eldhúsi eða sameiginlegu rými).
  • Setja önnur skilyrði eða skilmála á grundvelli kyns nema gestgjafinn deili rými með gestinum.
  • Birta skráningu eða koma með nokkra yfirlýsingu er dregur úr gestum eða virðist sýna að óskað sé fremur eða síður eftir gestum á grundvelli kyns, nema gestgafinn deili rými með gestinum.
 • Gestgjafar á Airbnb mega
  • Gera einingu tiltæka fyrir gesti af sama kyni og gestgjafinn, og ekki öðru kyni, ef gestgjafinn deilir rými með gestinum.

Fötlun

 • Gestgjafar á Airbnb mega ekki:
  • Hafna gesti á grundvelli raunverulegrar eða meintrar fötlunar.
  • Setja önnur skilyrði eða skilmála á grundvelli þess að gestur er með fötlun.
  • Taka eigin skilning á því hvort að eining fullnægi þörfum gestar með fötlun fram yfir skilning gestsins.
  • Spyrja eftir gerð eða alvarleika fötlunar gests, eða þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til að vega á móti fötlun. Ef, hins vegar, gestur nefnir fötlun sína má gestgjafi, og ætti, að ræða hvort eignin uppfylli þarfir hins mögulega gests.
  • Banna eða takmarka notkun tækja er auka hreyfigetu.
  • Rukka hærri leigu eða hækka önnur gjöld vegna gesta með fötlun.
  • Birta skráningu eða koma með nokkra yfirlýsingu er dregur úr gestum eða virðist sýna að óskað sé fremur eða síður eftir gestum með fötlun.
  • Neita að eiga samskipti við gesti gegnum aðgengilegar aðferðir, þeirra á meðal hjálpartæki fyrir heyrnarskerta og tölvupóst (fyrir sjónskerta sem nota skjálesara).
  • Neita að veita eðlilega þjónustu, meðal annars með því að sýna sveigjanleika þegar gestir með fötlun fara fram á dálitlar breytingar á húsreglum, þar á meðal varðandi hjálpardýr sem er nauðsynlegt vegna fötlunar, eða í tengslum við notkun á tiltækum bílastæðum nærri húsnæði. Þegar gestur fer fram á slíka þjónustu skulu gestgjafi og gestur eiga samskipti sín á milli til að komast að ásættanlegri niðurstöðu þeirra í milli og tryggja að húsnæðið uppfylli þarfir gestsins.
 • Gestgjafar á Airbnb mega:
  • Veita réttar upplýsingar um aðgengismál húsnæðis (eða skort á aðgengi) þannig að gestir með fötlun geti ákveðið sjálfir hvort að húsnæðið uppfylli þarfir þeirra.

Persónulegt val

 • Gestgjafar á Airbnb mega
  • Nema í þeim tilvikum sem nefnd eru að ofan mega gestgjafar á Airbnb neita að leigja á grundvelli þátta sem ekki eru bannaðir að lögum. Til dæmis, nema þar sem slíkt er bannað með lögum, mega gestgjafar á Airbnb neita að leigja gestum sem hafa gæludýr eða gestum sem reykja.
  • Krefja gesti um það að virða takmarkanir á þeim mat sem neyta má í eigninni (til dæmis getur gestgjafi sem virðir kosher ákvæði innan Gyðingdóms eða gestgjafi sem er grænmetisæta beðið gesti um að virða slíkar takmarkanir).
  • Ekkert í þessari stefnu meinar gestgjafa að hafna gesti á grundvelli eiginleika sem ekki eru varðir í lögum eða tengjast sérstaklega hópi er nýtur verndar. Til dæmis geta gestgjafar á Airbnb hafnað gesti sem vill reykja í húsnæði eða takmarkað fjölda gesta í húsnæði.

Þegar gestum er hafnað. Gestgjafar ættu að hafa í huga að engum líkar að fá höfnun. Þó að gestgjafi geti haft lögmæta ástæðu fyrir því að hafna mögulegum gesti getur slíkt leitt til þess að meðlimur samfélags okkar upplifi að hann eða hún sé ekki velkominn eða sæti útilokun. Gestgjafar ættu að leitast við að bjóða gesti velkomna hver svo sem bakgrunnur þeirra er. Ef uppvíst verður að gestgjafar hafni ítrekað gestum sem tilheyra hópum er njóta verndar (jafnvel þó að ástæðan sem gestgjafar gefi upp sé lögmæt) teljast þeir grafa undan velferð samfélags okkar með því að láta mögulega gesti upplifa sig óvelkomna og vera má að Airbnb loki aðgangi þeirra gestgjafa að verkvangi Airbnb.

Sérstakar leiðbeiningar fyrir gestgjafa utan Bandaríkjanna og Evrópusambandsins

Utan Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gætu lönd eða samfélög heimilað eða jafnvel krafist þess að fólk aðgreini gesti eftir, til dæmis, hjúskaparstöðu, þjóðernisuppruna, kyni eða kynhneigð, sem stangast á við almenn grundvallarviðhorf okkar gegn mismunun. Í þeim tilfellum krefjumst við þess ekki af gestgjöfum að þeir brjóti lög á svæðinu né að þeir samþykki gesti sem gætu stofnað gestgjafanum í raunverulega og óumdeilanlega hættu vegna handtöku eða líkams- eða eignatjóns. Gestgjafar sem búa á slíkum svæðum ættu að tilgreina í skráningu sinni þessar takmarkanir á möguleikum þeirra á að taka á móti tilteknum gestum til þess að væntanlegum gestum sé það ljóst og til þess að Airbnb geti staðfest nauðsyn þess að grípa til slíkra aðgerða. Þegar koma þarf slíkum takmörkunum til skila ætlumst við til þess að gestgjafar noti hugtök sem eru skýr, byggja á staðreyndum og eru ekki niðrandi. Rógur og móðganir eiga hvorki heima á verkvangi okkar né í samfélagi okkar.

Hvað gerist ef gestgjafi fylgir ekki stefnu okkar í þessum málum?

Ef í skráningu má finna skrif sem brjóta í bága við stefnu þessa gegn mismunun mun gestgjafi verða beðinn um að fjarlægja þau skrif og staðfesta skilning sinn og áhuga á að fylgja þessari stefnu og meginreglum þeim sem liggja henni til grundvallar. Airbnb getur einnig, að eigin vild, gripið til ráðstafana, sem geta verið allt að því að loka á aðgang gestgjafa að verkvangi Airbnb.

Ef gestgjafi hafnar gesti með óeðlilegum hætti á grundvelli þess að gestur tilheyrir hópi sem nýtur sérstakrar verndar í lögum eða notar orðfæri sem sýnir að athafnir hans eða hennar voru grundvallaðar á þáttum sem bannaðir eru samkvæmt þessari stefnu mun Airbnb grípa til ráðstafana til að framfylgja þessari stefnu, sem geta verið allt að því að loka á aðgang gestgjafa að verkvangi Airbnb.

Airbnb samfélaginu vex stöðugt fiskur um hrygg og við munum tryggja að stefnur og verkferlar Airbnb samræmist mikilvægasta markmiði okkar: Að tryggja að gestir og gestgjafar upplifi að vel sé tekið á móti þeim og þeim sýnd virðing í öllum samskiptum á verkvangi Airbnb. Almenningur, samfélag okkar og við sjálf búumst ekki við minna.