Náttúruöflin, samfélagið og góðmennskan

Áhugahvetjandi gestur deilir sögu sinni af þrautseigju eftir fellibylinn Maríu.
Airbnb skrifaði þann 24. ágú. 2023
4 mín. lestur
Síðast uppfært 24. ágú. 2023

Aðalatriði

  • Fellibylurinn María gekk yfir Púertó Ríkó og óveðrinu linnti eftir viku en áhrifin af storminum vörðu árum saman

  • Carmen, hverfisfulltrúi og umönnunaraðili, þurfti að yfirgefa heimili sitt eftir að fellibylurinn María skemmdi það

  • Carmen naut góðs af samstarfi Airbnb.org og SBP og dvaldi í eign af Airbnb nálægt heimilinu sínu á meðan það var endurbyggt

Við fáum innblástur frá gestum okkar og gestgjöfum sem segja þýðingarmiklar sögur af nýjum tengslum, seiglu og samfélaginu sínu þegar neyðarástand stendur yfir. Í þessum mánuði heiðrum við Carmen Suriel, íbúa Púertó Ríkó sem varð fyrir barðinu á fellibylnum Maríu árið 2017. Samstarf airbnb.org og SBP hjálpar til við að útvega tímabundið húsnæði fyrir gesti eins og Carmen þegar verið er að gera við heimili þeirra.

Heimili Carmen Suriel er griðastaður hennar. Heimilið er fullt af gróskumiklum grænum trjám með hangandi ástaraldinum; græðisúrulaufblöðin teygja sig til himins, hitabeltisblómin læða sér út við hliðið fyrir framan húsið og Coni, skjannahvít kanína, vaktar þögul garðinn hjá Carmen.

„Honum finnst gaman að vera fyrirsæta,“ segir Carmen í gríni um alvarlegu, en þó krúttlegu, kanínuna. En Carmen er líka til fyrirmyndar.

Carmen fæddist í Dóminíska lýðveldinu og hefur búið í Púertó Ríkó síðan hún var 17 ára. Hún er einstæð móðir og sonur hennar, Emmanuel, er fullorðinn. Emmanuel flutti nýlega aftur til Dóminíska lýðveldisins og stofnaði fjölskyldu.

Carmen er einnig umönnunaraðili fyrir aldraða en í því hlutverki þarf hún að vera óeigingjarn verndandi. Þegar fellibylurinn María gekk yfir Púertó Ríkó árið 2017 komu Carmen og samfélag hennar saman til að endurbyggja og lækna.

Carmen er þekkt fyrir að ná íbúum í hverfinu saman. Þegar aldraður maður veiktist sá hún til þess að hún og nágrannar hennar færðu honum vistir; rúmföt, handklæði og fleira. Og á meðan hann lá inni á spítala hjálpaði hún til við að hugsa um hann.

Hún segir fólk í samfélagi sínu oft styðja hvert annað á þennan hátt: Nágrannar skutla fólki til læknis, aðstoða við viðgerðir á heimilinu og gera við bíla hvers annars. „Fólk finnur til með öðrum hérna,“ segir Carmen brosandi. „Fólk elskar að leggja sitt af mörkum.“

Í fellibylnum Maríu dvaldi Carmen hjá aldraðri konu sem hún sinnti. Konan bjó á þriðju hæð íbúðarhúss í Miramar í Santurce. „Ég þurfti að vera hjá henni óslitið í sjö daga af því að hinn umönnunaraðilinn komst ekki aftur í vinnuna vegna þess að föllin tré höfðu lokað vegunum,“ útskýrði Carmen.

Eftir að mikið vatn flæddi inn á svalir sjúklings hennar ásamt trjágreinum gerði Carmen sitt besta til að safna brakinu án þess að hún tæki eftir því. Carmen var ákveðin í að láta hana ekki vita af óveðrinu sem geisaði úti. Þau heyrðu þó mikinn vindgný alls staðar á heimilinu.

„Ég hef aldrei séð jafn sterkan fellibyl og þennan,“ segir Carmen. „Manni er sagt frá fellibyljum en það er önnur saga að upplifa fellibyl. Að heyra af fellibyl er ekki það sama og að sjá fellibylinn.“

Þegar Carmen sneri heim var húsið hennar alvarlega skemmt. Þakið hjá henni hafði gefið sig, það hafði flætt yfir gólfin og hjá henni var rafmagnslaust mánuðum saman.

Fellibylurinn María hjaðnaði innan viku en afleiðingarnar stóðu yfir mánuðum saman sem urðu að árum. Rafmagn sló út í heilum hverfum, heimili eyðilögðust og meira en 3.000 manns týndu lífi sínu. Grasrótarsamtök voru meðal þeirra fyrstu til að styðja viðbrögð við hamförum og þau eru enn að vinna að endurreisn eyjunnar.

Gagnkvæm aðstoð skipti miklu máli í endurreisn Púertó Ríkó en hún byggir á því að fólk styður við hvert annað með því að deila úrræðum, peningum og tíma. Hún á sér enn stað í dag hjá félagasamtökum sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, svo sem hjá SBP sem vinnur með Airbnb.org. SBP eru samtök sem leggja áherslu á félagsleg áhrif með því að bæta viðnámsþrótt og bata vegna hamfara.

SBP eru samtök sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni og endurbyggja heimili eftir miklar hamfarir. Útkallsteymi voru kölluð út rétt eftir fellibylinn og formleg deild var stofnuð í Púertó Ríkó í júlí 2018. SBP og Airbnb.org vinna saman að því að fólk hafi gistingu á meðan verið er að endurnýja heimili þess.

„Við erum á fellibyljasvæði og höfum því upplifað storma og fellibyli áður. En ekkert hefur jafnast á við Maríu,“ segir Edgardo Maldonado, framkvæmdastjóri SBP Púertó Ríkó en hann er í sama samfélagi og Carmen.

Hverfi Carmen var fyrsta samfélagið sem SBP hjálpaði í Púertó Ríkó og heimili Carmen var fyrsta verkefni Edgardo árið 2019. Edgardo og verktakarnir hjá SBP vissu ekki hve miklar skemmdirnar voru á heimili Carmen fyrr en verkið hófst. Þeir áttuðu sig fljótlega á því að viðurinn var að rotna og skipta þurfti um rafleiðslur og þak.

Með örlæti samfélags okkar gátu Carmen og hundurinn hennar gist hjá gestgjafa að nafni Angel sem útvegaði henni þægilegt rými í sama hverfi.

„Ég held að Carmen hafi verið mjög ánægð að vita að (gisting) hennar var innan hverfisins,“ segir Edgardo. Nálægðin gerði Carmen kleift að koma heim með hundinn sinn á hverjum degi til að gefa honum að borða og að enduruppbyggingunni lokinni málaði Carmen heimilið sitt með sjálfboðaliðunum og verktökunum.

„Húsið mitt leit út fyrir að vera yfirgefið, eins og enginn byggi í því,“ segir Carmen. „Nú lítur húsið vel út og er öruggara. Nágrannar mínir fengu einnig aðstoð (frá öðrum samtökum). Mér finnst eins og blessunin hafi borist um samfélagið.“

Carmen minnist dvalarinnar af ánægju og gleði. Hún er umönnunaraðili sem er vanur að hlúa að öðrum en í þetta sinn snerust hlutverkin við. Henni fannst best að geta hvílst að heiman án þess að vera of langt frá heimilinu. „Og loftræstingin líka,“ segir Carmen kímin.

Á sama tíma og Carmen velti fyrir sér styrkleikum sínum, samfélagsins og heimilisins færðist hún aftur nær náttúrunni. „Ég hef gengið í gegnum harða bardaga og erfiðleika. En ég er þrátt fyrir allt sporðdreki,“ segir hún. „Við erum eina þrefalda stjörnumerkið: Fljúgandi fuglinn, skríðandi höggormurinn og sporðdrekinn. Við lifum af, jafnvel neðanjarðar.“

Aðalatriði

  • Fellibylurinn María gekk yfir Púertó Ríkó og óveðrinu linnti eftir viku en áhrifin af storminum vörðu árum saman

  • Carmen, hverfisfulltrúi og umönnunaraðili, þurfti að yfirgefa heimili sitt eftir að fellibylurinn María skemmdi það

  • Carmen naut góðs af samstarfi Airbnb.org og SBP og dvaldi í eign af Airbnb nálægt heimilinu sínu á meðan það var endurbyggt

Airbnb
24. ágú. 2023
Kom þetta að gagni?