Uppfærðu ljósmyndir af eigninni

Tveir atvinnuljósmyndarar deila fimm leiðum fyrir framúrskarandi skráningu á Airbnb.
Airbnb skrifaði þann 26. júl. 2022
7 mín. lestur
Síðast uppfært 26. júl. 2022

Aðalatriði

  • Veldu forsíðumynd sem sýnir einkenni eignarinnar

  • Lagaðu til, taktu myndir í augnhæð og hugsaðu vel um samsetninguna

  • Kynntu þér meira í handbók okkar um enn betri gestaumsjón

    Vissirðu að ljósmyndir ráða einna mestu um það hvaða gistiaðstöðu gestir velja? Gæði myndanna geta einnig haft áhrif á hve oft mögulegir gestir finna skráninguna þína í leitarniðurstöðum. Það þýðir að hágæðamyndir eru nauðsynlegar fyrir gistireksturinn.

    Jeff og Candida eru atvinnuljósmyndarar og ofurgestgjafar sem nota sköpunargáfu sína til að fá fleiri bókanir fyrir eyðimerkureignina sína, El Rancho, í Joshua Tree, Kaliforníu. Leyndarmál þeirra er að gera eignina eins fallega á mynd og hún er í raun og veru.

    Hér deilir parið sérfræðiábendingum sínum til að taka betri myndir fyrir skráningarlýsingar.

    Ljósmyndararnir og ofurgestgjafarnir Jeff og Candida segja frá því hvernig leggja má áherslu á helstu einkenni eigna með frábærum myndum.

    1. Fjarlægðu smádót

    Mundu að taka til áður en þú tekur myndir af eigninni. „Það kemur okkur stundum á óvart hve margir gleyma að fjarlægja smádót fyrir myndatöku,“ segir Jeff. „Við reynum að hafa ekki of mikið af smádóti í vistarverum okkar svo að það verði miklu auðveldara að taka réttu myndina, án nokkurra truflana.“

    Það þýðir þó ekki að svæðið ætti að vera alveg tómt. „Hafðu eitthvað mannlegt á myndinni,“ segir Candida, svo sem teppi eða lítinn bókastafla. „Það gerir staðinn svo miklu hlýlegri.“

    2. Rammaðu inn forsíðumyndina

    Forsíðumyndin af eigninni er það fyrsta sem ferðamenn taka eftir í leitarniðurstöðum og á skráningarsíðunni. Gerðu þitt besta svo að fyrstu kynnin hafi góð áhrif.

    „Hugsaðu um það sem gerir eign þína frábrugðna öðrum. Hvað er einstakt við hana? Heldurðu að fólk geti séð sjálft sig fyrir sér á staðnum? Skoðaðu aðrar skráningar á Airbnb til að sækja þér innblástur og finna út hvað virkar,“ mælir Candida með.

    Taktu einnig myndir af sérstökum svæðum sem gætu vakið áhuga tilvonandi gesta, til dæmis yfirlitsmynd af útisvæði eignarinnar.

    3. Finndu réttu birtuna

    „Birtan er leyndarmálið við frábærar skráningarmyndir,“ segir Candida. Hér eru nokkrar tillögur til að mynda eignina í réttri birtu:

    • Fylgstu með birtunni. Prófaðu þig áfram og kannaðu hvernig dagsbirtan leikur um heimilið að innan sem utan yfir daginn.
    • Taktu ljósmyndir í dagrenningu eða rökkri. Taktu útimyndir í morgunsárið eða við sólsetur þegar sólarbirtan gefur gylltan bjarma. Birtan er mýkri og ekki eins skörp sem gefur eigninni hlýlegan tón.
    • Nýttu náttúruna. Þegar þú tekur myndir innandyra skaltu finna þann tíma dags þegar þú færð bestu dagsbirtuna. Rafmagnslýsing ætti alltaf að vera síðasta úrræðið þar sem hún getur stungið í augun á myndum.
    • Slökktu á flassinu. Rétt eins og með aðra rafmagnslýsingu getur flassið stungið í augun. Sé engin dagsbirta þar sem þú tekur myndir er hægt að kveikja á lampa til að gefa notalega stemningu.

    4. Hugaðu að samsetningu mynda

    Hvað varðar gæði ljósmynda skiptir samsetningin (þ.e.a.s. í hvaða átt mynd er tekin, hve stór hún er, uppstilling og samhverfa) jafn miklu máli og viðfangsefnið. Hér eru nokkrar ábendingar sem gott er að hafa í huga við samsetningu:

    • Miðjaðu myndirnar þínar. Mundu að Airbnb sker af myndum svo að þær passi við skráningarlýsinguna og í leitarniðurstöðum. Hafðu aðalviðfangsefnið í miðju rammans svo að ekkert mikilvægt skerist af. „Ef þú ert með muni á heimilinu sem þér þykir vænt um skaltu reyna að koma þeim fyrir á miðri mynd svo að þeir veki athygli,“ segir Jeff.
    • Taktu myndir í augnhæð. Þegar myndir eru teknar frá hlutlausu sjónarhorni—án bjögunar eða halla upp eða niður—er líklegra að myndin samsvari sér vel og þannig geta gestir kynnst eigninni eins og hún ber þeim fyrir sjónir í eigin persónu.
    • Notaðu regluna um þriðjunga. „Ef þú skiptir myndarammanum í þriðjunga getur þú stuðst við skiptilínurnar við samsetningu myndefnisins,“ segir Jeff.
    • Notaðu fjölbreyttar myndir. Yfirlitsmyndir eru tilvaldar svo að fólk átti sig á stærð herbergis en myndir í miðlungs fjarlægð eru bestar til að leggja áherslu á eitthvað tiltekið eins og sjónvarp eða æfingahjól. Notaðu svo nærmyndir fyrir smáatriðin sem sýna einkenni eignarinnar.
    • Myndaðu tengsl. Líttu á myndasafnið sem skoðunarferð og sýndu tilvonandi gestum hvernig herbergin tengjast saman á myndunum.

    5. Sýndu kosti eignarinnar

    Reyndu að hugsa eins og gestur þegar þú velur hvað þú vilt mynda og hverju þú vilt sleppa.

    „Það er mikilvægt að velja réttu myndirnar og hafa þær fjölbreyttar til að veita eigninni bestu umgjörðina,“ segir Candida. „Hvað munu gestir elska við eignina þína? Af hverju ættu gestir að vita sem kæmi annars á óvart? Hvernig getur þú sýnt einstök atriði og á sama tíma gert fólki ljóst hvernig herbergið allt lítur út?“

    Mundu að hluti af því að segja söguna er að þysja út og sýna umhverfið í kring. „Myndirnar þurfa ekki allar að vera af heimilinu,“ tekur Jeff fram. Þú gætir t.d. sett inn myndir af göngustíg í nágrenninu eða krúttlega kaffihúsinu á horninu.

    Þegar eignin og hverfið eru sýnd skiptir mestu að nota hágæðamyndir svo að tilvonandi gestir sjái dvölina fyrir sér—og bóki vonandi eftirminnilega dvöl hjá þér.

    Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.


    Aðalatriði

    • Veldu forsíðumynd sem sýnir einkenni eignarinnar

    • Lagaðu til, taktu myndir í augnhæð og hugsaðu vel um samsetninguna

    • Kynntu þér meira í handbók okkar um enn betri gestaumsjón

      Airbnb
      26. júl. 2022
      Kom þetta að gagni?