Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum

  Kynntu þér endurvinnslu og minnkun úrgangs

  Vertu sjálfbærari gestgjafi með því að auðvelda gestum að farga úrgangi á viðeigandi hátt.
  Höf: Airbnb, 21. apr. 2021
  3 mín. lestur
  Síðast uppfært 22. apr. 2021

  Aðalatriði

  • Fáðu hugmyndir um einfaldar leiðir fyrir þig til að verða umhverfisvænni gestgjafi

  • Litlar breytingar geta dregið úr plastúrgangi, allt frá því að bjóða síað kranavatn til endurnýtanlegra poka

  • Mundu að útvega aðskildar sorptunnur til endurvinnslu

  Margir ferðamannastaðir glíma við sorpvandamál, allt frá yfirfullum urðunarstöðum til ófullnægjandi endurvinnsluvalkosta. Á hverri mínútu endar plastúrgangur sem samsvarar fullum sturtupalli einnar vörubifreiðar í sjónum. Það gerir 8 milljónir tonna* af plasti á ári. Vegna skaðlegra áhrifa á umhverfi og dýralíf er mikilvægt að draga úr notkun plasts og minnka úrgang þegar það er mögulegt.

  Til að hjálpa gestgjöfum að kynna sér bestu starfsvenjurnar við að draga úr úrgangi og meðhöndla hann höfum við átt í nánu samstarfi við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem unnið hefur frumkvöðlastarf í umhverfisvernd á alþjóðavísu ásamt World Wildlife Fund, helstu verndunarsamtökum heims. Við deilum einnig ábendingum frá alþjóðasamfélagi gestgjafa okkar um hvernig þeir hafa tekið á hlutunum í eignum sínum.

  Skoðaðu þessar hugmyndir um hvernig þú getur dregið úr úrgangi:

  Stöðvaðu notkun einnota plasts

  Ofurgestgjafinn Anna frá Pembrokeshire í Wales og fjölskylda hennar ákváðu að skuldbinda sig við að reyna að hætta að nota plast árið 2019. Ferlið hefur verið í áföngum en þeim gengur betur með hverju árinu.

  „Handgerðu sápurnar og sjampóstykkin sem við bjóðum upp á koma frá yndislegu fyrirtæki sem er í innan 1,6 km fjarlægð“, segir Anna. „Það er meira að segja sjávarþari í sápunni sem kemur frá ströndinni sem gestir okkar hafa útsýni yfir frá glugganum!“

  Hér eru nokkrar aðrar hugmyndir til að forðast plast:

  • Útvegaðu endurnýtanlega poka: Villt dýr í náttúrunni geta haldið að plastpokar séu fæða**. Hjálpaðu gestum að forðast þá með því að útvega endurnýtanlega innkaupapoka sem hægt er að þvo á meðan á dvöl þeirra stendur. Ofurgestgjafinn Tiffany frá Hollywood Beach í Kaliforníu býður upp á hjólakörfur með taufóðri sem verður síðan að poka til þess að auðvelda gestum innkaup á ferðinni.
  • Vertu með nóg af endurnýtanlegum bollum og matarílátum: Endurnýtanlegar vatnsflöskur og kaffibollar nýtast gestum vel þegar þeir eru á ferðinni. Matarílát úr gleri gera gestum kleift að geyma matarafganga eða pakka nesti fyrir lautarferð.
  • Notaðu áfyllanleg ílát: Veldu áfyllanleg ílát í stað einnota fyrir handsápu, uppþvottalög og hreinsivörur.
  • Bjóddu síað kranavatn: Þú getur komið í veg fyrir að gestir kaupi flöskuvatn með því að setja upp vatnssíu á kranann hjá þér eða vera með vatnskönnu með síu. „Við erum með vatnssíukerfi í eignunum okkar“, segir ofurgestgjafinn Omar frá Mexíkóborg. „Gestir hafa sagt okkur að það hafi verið ráðandi þáttur þegar þeir bókuðu!“
  • Forðastu kaffivélar sem nota plasthylki: Ef þú býður gestum þínum upp á kaffi skaltu velja lífrænt kaffi sem ræktað er í skugga í stað einnota kaffihylkja. Kaffi sem ræktað er í skugga vex undir skjóli trjáa sem skapa mikilvægt búsvæði fyrir fjölda skordýra, fugla og dýra sem stafar vaxandi hætta af skógeyðingu.

  Framúrskarandi endurvinnsla

  Mögulega er sumum gestum ekki kunnugt um endurvinnslu og mismunandi reglur eiga við í hverju samfélagi fyrir sig. Hér eru nokkrar ábendingar til að hjálpa gestum þínum að endurvinna eins og heimafólk:

  • Fræddu þig: Kynntu þér hvaða plasttegundir eru samþykktar hjá endurvinnslustöðinni á þínu svæði og hvettu gesti þína til að endurvinna þær tegundir.
  • Útvegaðu merktar sorptunnur: Bjóddu upp á að minnsta kosti eina endurvinnslutunnu. Passaðu upp á að vera með aðskildar tunnur fyrir ólík endurvinnsluefni eins og pappír og gler.
  • Veittu skýrar leiðbeiningar: Vertu með myndir og dæmi í húsleiðbeiningum þínum svo gestir eigi auðvelt með að fylgja þeim eftir.
  • Vertu með áminningar hér og þar í eigninni: Ofurgestgjafinn Antonella frá Mílanó á Ítalíu hefur þann vana á að útskýra endurvinnsluferlið persónulega fyrir gestum við innritun ásamt því að minna á reglurnar hér og þar í eigninni. „Auk þess að hafa reglurnar í húsleiðbeiningunum hef ég prentað út blað með reglunum á ensku og komið fyrir nálægt sorptunnunum“, segir hún. Frá vefsíðu borgaryfirvalda á staðnum prentaði hún líka út endurvinnslureglur á mörgum tungumálum.
  Við vonum að þessar hugmyndir komi þér að gagni við að tileinka þér umhverfisvænni venjur við gestaumsjónina. Íhugaðu að bjóða fjölskyldu þinni, vinum og nágrönnum að taka líka þátt vegna þess að við þurfum öll að leggja okkar af mörkum við að hugsa um plánetuna.

  NÆST: Kynntu þér einföld skref til að styðja við sjálfbæra ferðamennsku

  *Úr riti World Wildlife Fund,
  No Plastic in Nature: A Practical Guide for Business Engagement, gefið út 5. febrúar 2019

  **Úr 60 Actions for the Planet frá World Wildlife Fund, gefið út 5. mars 2021

  Upplýsingarnar í þessari grein gætu hafa breyst frá birtingu.

  Aðalatriði

  • Fáðu hugmyndir um einfaldar leiðir fyrir þig til að verða umhverfisvænni gestgjafi

  • Litlar breytingar geta dregið úr plastúrgangi, allt frá því að bjóða síað kranavatn til endurnýtanlegra poka

  • Mundu að útvega aðskildar sorptunnur til endurvinnslu

  Airbnb
  21. apr. 2021
  Kom þetta að gagni?