Stökkva beint að efni
  Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum
  Leiðbeiningar um þrif til að koma í veg fyrir dreifingu COVID-19

  Leiðbeiningar um þrif til að koma í veg fyrir dreifingu COVID-19

  Þetta þarftu að vita um sótthreinsun, réttar birgðir og allt þar á milli.
  Höf: Airbnb, 23. mar. 2020
  6 mín. lestur

  Uppfært 28. apríl 2020

  Við vitum að mörg ykkar takið áfram á móti gestum. Hvort sem það þýðir að opna heimili ykkar fyrir lengri gistingu, að fá gesti úr nærumhverfi eða að bjóða húsnæði fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem er í framlínu gegn kórónaveirunni (COVID-19). Takir þú áfram á móti gestum er mikilvægt að endurskoða ferli við þrif svo að þú gerir örugglega það sem þarf til að vernda þig og gesti þína.

  Við viljum hjálpa til svo að við höfum tekið saman leiðbeiningar byggðar á innsýn og ráðleggingum frá Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna (CDC).

  Ástæða þess að þrif hafa aldrei verið mikilvægari

  Hreinlæti hefur alltaf verið fremst í hugum gestgjafa og gesta. En það er enn brýnna nú þegar við viljum öll hefta smit. Samkvæmt CDC er unnt að smitast af COVID-19 við að snerta veiruna á menguðu yfirborði, svo sem á hurðarhúni eða ljósarofa, og veiran getur verið virk á sumum yfirborðum klukkutímum, eða jafnvel dögum, saman. Þess vegna skiptir höfuðmáli að hreinsa og sótthreinsa mikið notaða snertifleti, einkum milli bókana.

  Athugaðu: CDC mælir með því að fólk bíði í sólarhring áður en farið er inn í fasteign sem notuð var af einstaklingi sem kann að hafa verið útsettur fyrir kórónaveirunni. Gestgjafar sem taka þátt í þjónustu okkar fyrir framlínugistingu þurfa að bíða í 72 klst. milli bókana. Þessi bið nær yfir sólarhringsbiðtíma, tíma til að þrífa og sótthreinsa nægilega vel öll svæði sem gestir hafa aðgang að og aukabiðtími.

  Munurinn á sótthreinsun og þrifum

  Þegar kemur að því að koma í veg fyrir dreifingu sýkla er gagnlegt að skilja muninn á þrifum og sótthreinsun. Með þrifum eru hreinsaðir burt sýklar, óhreinindi og sori (eins og þegar þú notar sápusvamp til að þurrka sýnileg óhreinindi af eldhúsborði eða eldavél). Sótthreinsun er þegar efni eru notuð til að drepa sýkla (eins og að úða með klórlausn). Með því að þrífa fyrst og sótthreinsa svo getur þú dregið úr smithættu.

  Fylgdu þessum leiðbeiningum um þrif

  Hér eru ýmsar leiðbeiningar um hvernig ætti að þrífa eign milli gesta. Ef þú nýtir þér þjónustu fagaðila við þrif ættir þú að biðja viðkomandi um að fylgja einnig þessum lista.

  1. Notaðu hlífðarbúnað við þrif. Hægt er að vernda sig betur með persónuhlífum á borð við einnota hanska, svuntur, sloppa og andlitsgrímur eða -hlífar (grímur geta verið heimatilbúnar eða keyptar). Mundu að þvo hendurnar um leið og þú tekur hanskana af þér.

  2. Loftræstu herbergi áður en þú þrífur. CDC mælir með því að opna útidyr og glugga og nota blásara til að auka hringrás lofts innandyra áður en byrjað er að þrífa og sótthreinsa. Lærðu meira af CDC um rétta loftræstingu fyrir þrif.

  3. Þvoðu hendurnar vandlega fyrir og eftir hverja hreinsun. Notaðu sápu og vatn og þvoðu þér í að minnsta kosti 20 sekúndur. Ef það gengur ekki skaltu nota handhreinsiefni með að minnsta kosti 60% alkóhóli. Frekari upplýsingar um réttan handþvott

  4. Þrífðu og sótthreinsaðu síðan. Notaðu þvotta- og hreinsiefni eða sápu og vatn til að fjarlægja óhreinindi, fitu, ryk og sýkla. Þegar yfirborðið er orðið hreint skal úða á það með sótthreinsiefni. Láttu efnið standa í nokkrar mínútur og þurrkaðu síðan. Ef þú notar ekki pappírsþurrkur eða einnota þurrkur er best að nota nýjan þrifklút fyrir hvern gest.

   5. Forðastu að snerta andlitið við þrif. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýkla mælir CDC með því að snerta ekki andlit, nef eða augu með óþvegnum höndum. Farðu því varlega við þrif.

   6. Notaðu rétt sótthreinsiefni. Talið er að flest algeng sótthreinsiefni fyrir heimilið, (sem skráð eru hjá Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA), sem og hreinsivökvi með útþynntu bleikiefni eða a.m.k. 70% alkóhóli virki vel gegn kórónaveirunni. Farðu sérstaklega vel yfir mikið notaða snertifleti eins og ljósarofa, hurðarhúna, fjarstýringar og handföng á blöndunartækjum. (Sjá heildarlista yfir yfirborð sem ber að sótthreinsa neðst á síðunni.)

    7. Ekki gleyma sófum, gólfteppum, gardínum og öðrum mjúkum, gropnum yfirborðum. Fjarlægðu vandlega öll óhreinindi sem sjást og þrífðu svo með viðeigandi hreinsiefnum sem ætluð eru fyrir þessi yfirborð. Ef mögulegt er skal þvo hluti í þvottavél í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda.

    8. Þvoðu allt lín við hæstu hitastillingu sem framleiðandinn mælir með. Þetta eru m.a. rúmföt, dýnuver, hand- og baðhandklæði, viskastykki og teppi. Mundu að nota hanska við meðhöndlun á óhreinataui, og passaðu að hrista það ekki því að sýklar gætu dreifst sé það hrist.

    9. Þrífðu og sótthreinsaðu þvottakörfur. Ef mögulegt er skal nota poka sem er einnota eða sem má þvo í þvottavél.

    10. Tæmdu ryksuguna eftir hver þrif. Notaðu sótthreinsiefni á ryksuguna og önnur heimilistæki eins og uppþvottavél og þvottavél.

    11. Gefðu þér tíma til að athuga fyrningardagsetningar þegar þú kaupir birgðir. Mundu að blanda aldrei saman bleikiklór fyrir heimili og ammoníaki eða neinni annarri hreinsilausn sem getur gefið af sér eitraðar lofttegundir sem er hættulegt að anda aða sér.

    12. Notaðu poka í ruslatunnum. Með pokum í ruslakörfum verður auðveldara að farga þurrkum og öðrum úrgangi.

     13. Fargaðu eða þvoðu hreinlætisvörur. Ef þú notar pappírsþurrkur, sótthreinsiþurrkur og aðrar einnota hreinsivörur skaltu henda ruslinu í lokin. Ef þú notar hreinsiklúta og aðrar endurnýtanlegar vörur skaltu þvo allt í þvottavél við hæstu hitastillingu sem hentar efninu.

     14. Gættu öryggis þegar þú tekur hreinlætisvörn af þér. Farðu tafarlaust úr öryggisfatnaði eins og sloppum, hönskum og grímum að loknum þrifum og hentu þessu eða þvoðu eftir þörfum. Mundu að þvo svo hendurnar í að minnsta kosti 20 sekúndur.

     Gestum hjálpað að vernda sig

     Rétt eins og þú munu margir gestir vilja gera viðbótarráðstafanir til að draga úr smithættu. Þú getur stutt við samskiptafjarlægð (e. social distancing) með því að bjóða sjálfsinnritun og -útritun. Íhugaðu að koma fyrir lyklaboxi eða snjalllási með talnaborði og mundu að uppfæra skráningu þína til að bæta við leiðbeiningum fyrir sjálfsinnritun. Þú getur einnig lágmarkað samskipti milli fólks með því að sleppa venjulegu viðhaldi þegar gestur dvelur á staðnum.

     Til að hjálpa gestum við aukið hreinlæti og bætta hollustuhætti skaltu vera viss um að nóg sé af nauðsynjum á staðnum; og þú gætir íhugað að bæta fleiru við. Dæmi:

     • Handsápa
     • Eldhúspappír
     • Pappírsþurrkur
     • Salernispappír

     Passaðu að það sé nóg af handklæðum og rúmfötum til viðbótar, sérstaklega fyrir gesti sem gista lengur en í nokkra daga. Þú getur hvatt gesti til að þrífa upp eftir sig með því að skilja eftir sótthreinsiefni og önnur ræstiefni handa þeim. Þú gætir jafnvel viljað prenta út og deila ofangreindum leiðbeiningum um þrif svo að ef gestir ákveða að þrífa eða þvo rúmföt geti þeir gert það samkvæmt leiðbeiningum CDC.

     Láttu gesti vita að þú býður upp á endurbætt ræstingarferli

     Gestir munu vilja vita af þeim viðbótarráðstöfunum sem þú hefur til að draga úr smithættu. Það er því góð hugmynd að nefna endurbætt ferli við þrif í skráningarlýsingunni þinni. Ef þú gerir það skaltu velja orð þín vandlega. Þótt það sé í góðu lagi að segjast grípa til sérstakra ráðstafana og sótthreinsa fasteignina vegna COVID-19 máttu ekki leggja fram órökstuddar fullyrðingar, eins og að kalla eignina þína „COVID-lausa.“

     Vonandi gagnast þér þessar leiðbeiningar um þrif er þú sinnir gestaumsjón á þessum erfiðu tímum. Við munum uppfæra ráðleggingarnar okkar frekar eftir því sem staðan breytist. Í millitíðinni skaltu skoða vefsetur CDC til að fá frekari upplýsingar um COVID-19 og farðu yfir allar útgefnar leiðbeiningar frá stjórnvöldum á staðnum og heilbrigðisyfirvöldum.

     *Þetta efni er byggt á upplýsingum sem Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna (CDC) gefur opinberlega út. Hvorki CDC né Airbnb styður þetta efni. Airbnb gefur enga yfirlýsingu eða ábyrgð af neinu tagi, hvorki beint né óbeint, varðandi það hvort allt komi fram í efninu, hvort það sé rétt, áreiðanlegt, viðeigandi eða til taks sama hver tilgangurinn er. Þú berð því alfarið ábyrgð á því hve mikið þú treystir á þessar upplýsingar.

     Gátlisti yfir atriði sem þarf að þrífa og sótthreinsa

     Almennt:

     • Hurðarhúnar
     • Yfirborð
     • Ljósarofar
     • Fjarstýringar
     • Borð
     • Viftu- og lampakeðjur
     • Gluggasillur og -handföng
     • Hitastillar
     • Lyklar
     • Hárþurrkur
     • Handrið
     • Straubretti og -járn
     • Sorp- og endurvinnslutunnur

     Eldhús:

     • Vaskar
     • Skápahandföng
     • Heimilistæki: ofn, brauðrist, hraðsuðupottur, kaffivél o.s.frv.
     • Bragðbætir: olía, salt- og piparstaukar, algeng krydd og ílát o.s.frv.
     • Eldhúsahöld sem mega ekki fara í uppþvottavél: postulínsskálar, plastvörur fyrir börn o.s.frv.
     • Stólar með hörðu baki

     Baðherbergi:

     • Vaskar
     • Salerni
     • Handföng á blöndunartækjum
     • Sturtur og baðker
     • Sturtuhengi og -hurðir
     • Sjampó, hárnæring, líkamssápa og sápuskammtarar

     Svefnherbergi

     • Herðatré og farangursgrindur
     • Náttborð

     Hreinlætistæki:

     • Uppþvottavélar
     • Ryksugur
     • Þvottavélar og þurrkarar

     Barnavörur:

     • Leikföng
     • Færanleg rúm og leikgrindur
     • Barnastólar

     Önnur þægindi:

     • Reiðhjól
     • Regnhlífar
     • Leikir
     • Bækur
     Airbnb
     23. mar. 2020
     Kom þetta að gagni?