Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum

  Handbók fyrir ljósmyndun vegna aðgengiseiginleika

  Hægt er að veita gestum með hreyfihamlanir réttar væntingar með frábærum myndum af eigninni.
  Höf: Airbnb, 22. sep. 2020
  5 mín. lestur
  Síðast uppfært 14. jún. 2022

  Aðalatriði

  • Ferðamenn leita oft að eiginleikum varðandi aðgengi svo sem inngangi með engum tröppum

  • Hágæðamyndir af þessum eiginleikum geta hjálpað gestum að ákveða hvort eignin þín henti þeim

   • Frekari upplýsingar er að finna í hjálparmiðstöðinni okkar um hvernig bæta má aðgengiseiginleikum við skráningar

   Gestir með aðgengisþarfir vilja vita við hverju þeir geta búist þegar þeir koma á staðinn. Með því að sýna hágæðamyndir af inngangi og innan úr eigninni geta gestir lagt mat á aðgengi og hvort þeir eigi auðvelt með að fara um eignina án þess að stigar, þrep eða þröskuldir verði fyrir vegi þeirra.

   Sem gestgjafi er það undir þér komið að tryggja að skráningarlýsingin þín og myndir séu réttar og lýsandi. Þrátt fyrir að þú berir ekki ábyrgð á að skilja þarfir hvers og eins geta mögulegir gestir ákvarðað hvort eignin þín henti þeim sé gefin rétt mynd af henni.

   Airbnb fer yfir alla aðgengiseiginleika áður en þeim er bætt við skráninguna. Ef mynd sýnir ekki greinilega eiginleikann eins og kveðið er á um í viðmiðunarreglum okkar gætum við beðið þig um að hlaða upp nýrri mynd eða að taka eiginleikann út af skráningunni.

   Gott er að hafa nokkur atriði í huga varðandi uppfærslu á skráningu:

   • Þú getur tekið fram að aðgengiseiginleikar eigi aðeins við um tiltekin herbergi. Þú getur til dæmis bent á að það sé aðeins þrepalaust aðgengi að einu baðherbergi.
   • Þú þarft ekki að setja inn atvinnuljósmyndir. Þú getur tekið myndir með síma. Þessar myndir birtast í aðgengishlutanum á skráningarsíðunni þinni og eru aðskildar frá myndasafni skráningarinnar. Þú verður að hafa minnst eina ljósmynd af hverjum aðgengiseiginleika sem þú velur.
   • Notaðu málband til að sýna gestum að þú sért með breiðar dyragættir (þetta er hluti af viðmiðum okkar fyrir ljósmyndir) sem rúma hjólastóla og annan búnað fyrir hreyfihamlaða.
   • Gestir geta betur áttað sig á eigninni þinni ef þú hleður upp mörgum myndum frá mismunandi sjónarhornum fyrir hvern eiginleika. Ef þú sýnir til dæmis þrepalausa dyragátt skaltu taka myndir báðum megin við þröskuldinn svo að gesturinn sjái allan innganginn að eigninni.

   Hvernig sýna má þrepalausan stíg að inngangi

   Komast gestir að útidyrunum frá gangstéttinni eða næsta bílastæði án þess að verða fyrir tröppum eða stigum? Hvaða yfirborð þurfa þeir að fara yfir til að komast á staðinn? Gættu þess að taka skýrar myndir af leiðinni utandyra sem liggur að inngangi eignarinnar.

   Hvernig á að taka myndir af inngangi:
   1. Stattu a.m.k. 6 metrum (20 fetum) frá inngangi byggingarinnar eða næsta bílastæði til að sýna eins mikið af leiðinni og mögulegt er og hallaðu myndavélinni örlítið í átt að jörðinni til að sýna yfirborð leiðarinnar. Ef eignin er í fjölbýlishúsi eða á hóteli skaltu sýna leiðina frá inngangi byggingarinnar inn í anddyrið að inngangi íbúðarinnar. Ef við á er einnig mikilvægt að sýna myndir af lyftum eða rampi.

     2. Gættu þess að sýna inngang byggingarinnar við enda gangvegsins.

     Hvernig sýna má þrepalausa inngönguleið að fasteign

     Sýndu gestum þínum að þeir komist inn um útidyrnar sem og í svefnherbergi, baðherbergi, sturtu og sameign án þess að þurfa að fara yfir stiga eða tröppur eða yfir kanta eða háa þröskulda (hærri en sem nemur 5 cm eða 2 tommum).

     Hvernig á að taka myndir af inngöngum:
     1. Opnaðu útidyrnar sem þú vilt sýna og hallaðu myndavélinni örlítið í átt að gólfinu til að sýna að flöturinn sé flatur báðum megin við þröskuldinn.

       2. Farðu að minnsta kosti 1,5 metra (5 fet) frá innganginum til að sýna dyragáttina frá báðum hliðum og ef margir inngangar eru á eigninni skaltu sýna þá alla á mynd.

       3. Ef þú tekur fram að tiltekið herbergi (svefnherbergi, baðherbergi, stofa o.s.frv.) sé með engar tröppur ertu að staðfesta að herbergið sé annaðhvort á jarðhæð eða aðgengilegt með lyftu eða rampi. Láttu fylgja með margar ljósmyndir sem sýna leiðina frá útidyrunum inn í það herbergi.

        4. Ef sturtan er þrepalaus skaltu draga sturtuhengið frá eða opna dyrnar og halla myndavélinni örlítið í átt að gólfi inngangsins til að sýna að þar séu ekki þrep eða brún hærri en 2,5 cm (1 tomma).

        Ábending: Í leiðarvísi fyrir ljósmyndir er að finna fleiri leiðir til að taka framúrskarandi myndir með snjallsíma.

        Hvernig á að taka myndir af breiðum inngöngum

        Fyrir gesti með búnað til að auka hreyfigetu, svo sem hjólastóla, getur vitneskja um breidd dyragátta hjálpað þeim að ákvarða hvort þeir geti farið um eignina þína. Hjá Airbnb teljum við „breiðan inngang“ vera breiðan sé hann að minnsta kosti 81 cm (32 tommur).

        Opnaðu dyrnar og notaðu málband til að sýna breidd dyrakarmsins. Einnig væri góð hugmynd að taka tvær myndir: Eina sem sýnir allt málbandið og aðra nærmynd svo að gestir getið lesið af málbandinu.

         Hvernig sýna má aðra aðgengiseiginleika

         Þú getur notað ýmsa aðra eiginleika til að hjálpa gestum að komast inn í eignina þína og ganga um hana með þægilegum hætti. Ef þú ert með eitthvað af þessu skaltu taka ljósmyndir og bæta þeim við skráninguna þína til að gestir viti við hverju þeir mega búast.

         1. Sýndu eins mikið af hverjum eiginleika og mögulegt er á ljósmyndunum.

         2. Reyndu einnig að hafa eins mikið af svæðinu í kring og mögulegt er á mynd svo að gesturinn geti séð fyrir sér hvar eiginleikinn er staðsettur eða hversu stór hann er. Ef þú ert til dæmis að sýna sturtustól skaltu sýna hann á sínum stað í sturtunni.

          Dæmi um hvern aðgengiseiginleika

          Festar gripslár fyrir sturtu eða salerni: Þessar slár eru kirfilega festar við vegginn til að hjálpa fólki að ná jafnvægi og styðja við þyngd þess. Þetta geta ekki verið handklæðaslár, handklæðaofnar eða hluti af sturtuhurð.

          Sturtu-/baðstóll: Þetta er bekkur eða laust sæti sem er hannað til að hjálpa fólki með takmarkaða hreyfigetu að baða sig. Þetta getur einnig verið sæti sem er fest við vegginn en á ekki við um húsgögn sem eru ekki ætluð til að baða sig (eins og húsgögn af verönd eða plastfellistóla sem gætu runnið á blautu yfirborði).

          Loftlyfta eða færanlegur lyftibúnaður: Þetta er lyfta sem er fest í loftið eða frístandandi búnaður sem hjálpar fólki í og úr hjólastól.

          Bílastæði fyrir hreyfihamlaða: Þetta er almenningsbílastæði sem er ætlað fólki með fötlun eða einkabílastæði á lóð eignarinnar sem er með að minnsta kosti 3,5 m (11 fet) breitt stæði fyrir einn bíl. Sýndu almenningsbílastæðið með skilti fyrir bílastæði eða einkabílastæðið með bíl við hliðina á bílastæðinu til viðmiðunar. Þú getur einnig notað málband á myndinni til að sýna breiddina.

          Lyftibúnaður í laug: Þetta er búnaður til að lyfta einstaklingi í og úr sundlaug eða heitum potti.

          Vel upplýst leið að inngangi: Þetta er leið frá innkeyrslu eða stíg að inngangi eignarinnar sem er upplýst með götuljósum, garðljósum eða öðrum tilbúnum ljósgjöfum. Prófaðu að taka ljósmynd af leiðinni að kvöldi til eða snemma að morgni svo að gestir geti séð hvar ljósið er staðsett og hversu bjart það er.

          Þú gætir einnig íhugað aðrar leiðir til að styðja við gesti með aðgengisþarfir. Skýr samskipti og nokkrar breytingar á eign þinni og skráningu geta skipt sköpum fyrir fjölda gesta.

          Jake er gestur með takmarkaða hreyfigetu og hann útskýrir stöðuna vel: „Með nákvæmum upplýsingum í upphafi er auðveldara fyrir fatlaðan einstakling að skoða sig um.“

          *Samkvæmt gögnum Airbnb sem safnað var frá janúar til maí 2019

          Aðalatriði

          • Ferðamenn leita oft að eiginleikum varðandi aðgengi svo sem inngangi með engum tröppum

          • Hágæðamyndir af þessum eiginleikum geta hjálpað gestum að ákveða hvort eignin þín henti þeim

           • Frekari upplýsingar er að finna í hjálparmiðstöðinni okkar um hvernig bæta má aðgengiseiginleikum við skráningar

           Airbnb
           22. sep. 2020
           Kom þetta að gagni?