Stökkva beint að efni
  Haltu áfram til að sjá tillögur að niðurstöðum

  Hvernig er ferlið þegar Airbnb staðfestir auðkenni þitt?

  Við hjá Airbnb leitum stanslaust leiða til að auka öryggi allra samfélagsmeðlima okkar. Þess vegna gætum við farið fram á opinber skilríki eða látið þig staðfesta nafn þitt að lögum og bæta heimilisfangi þínu við áður en þú bókar gistingu, upplifun eða gerist gestgjafi. Þessar upplýsingar gagnast okkur til að gæta öryggis á Airbnb, berjast gegn svindli o.s.frv.

  Hvernig Airbnb staðfestir auðkenni

  Þegar þú þarft að staðfesta auðkenni þitt þarft þú annaðhvort að setja inn nafn þitt og heimilisfang að lögum eða ljósmynd af opinberum skilríkjum (ökuskírteini, vegabréfi eða innlendu kennivottorði). Þú gætir einnig þurft að taka nýja sjálfsmynd. Hún er ólík notandamyndinni sem við gætum einnig beðið þig um að framvísa.

  Ef farið er fram á sjálfsmynd þarf hún að passa við myndina á skilríkjunum þínum og skilríkin þurfa að vera í gildi. Þú munt ekki geta bókað skráningu þar sem er krafist skilríkja ef ljósmyndirnar passa ekki saman, þú ert yngri en 18 ára eða ef skilríkin þín virðast vera ógild. Ef þú ert yngri en 18 ára verða allar óloknar bókanir einnig felldar úr gildi.

  Þú gætir haft nokkrar leiðir til að staðfesta skilríki þín:

  • Taktu ljósmynd af skilríkjunum þínum með símanum
  • Taktu ljósmynd með vefmyndavél á tölvunni þinni eða fartæki
  • Hladdu upp ljósmynd sem þú átt af skilríkjunum þínum
  • Settu inn löglegt eigin- og kenninafn þitt
  • Settu inn heimilisfang þitt (þetta ætti að vera sami staður og þú færð bankagögn eða reikninga frá veitufyrirtækjum)

  Að ljúka ferlinu er ekki yfirlýsing um stuðning við gestgjafa eða gesti, trygging á auðkenni viðkomandi eða loforð um að samskipti við viðkomandi verði örugg. Fylgdu alltaf eigin dómgreind og öryggisábendingum okkar fyrir gesti og gestgjafa.

  Þegar beðið er um að þú staðfestir skilríki þín

  Þetta getur gerst af ýmsum ástæðum. Sumir gestgjafar fara til dæmis fram á að gestir ljúki við staðfestingu á skilríkjum áður en þeir geta bókað eign þeirra eða upplifun.

  Einnig getur komið fyrir að Airbnb fari fram á staðfestingu á skilríkjum til að geta staðfest að þú sért réttur aðili.

  Sama hver ástæðan er mun skilríkjum þínum aldrei vera deilt með gestgjafa eða neinum öðrum notanda Airbnb.

  Ef þú þarft að hætta og halda áfram að staðfesta skilríki síðar er það allt í lagi. Það er nóg að opna airbnb.com/verify til að halda áfram þar sem frá var horfið.

  Tegundir skilríkja

  Eftirfarandi tegundir opinberra skilríkja gætu verið í boði en það fer eftir staðsetningu þinni og í hvaða landi þú ert:

  • Ökuskírteini
  • Vegabréf
  • Ríkiskennivottorð

  Skilríkin þurfa að vera gefin út af opinberum yfirvöldum (ekki t.d. skilríki hjá skóla, bókasafni, líkamsræktarstöð) og á þeim verður að vera ljósmynd af þér.

  Ef þú bætir við ökuskírteini þarft þú að senda inn tvær ljósmyndir: Eina af framhlið skilríkja og eina af bakhlið.

  Ef þú bætir við vegabréfi þarftu að passa að númerin neðst á síðunni komi fram á ljósmyndinni.

  Fyrir íbúa Singapúr, Hong Kong, Hollands, Japan og Suður-Kóreu: Passaðu að mynd af skilríkjunum þínum sýni ekki númer skilríkja eða skráningarnúmer, sama hvaða skilríki þú notar. Takir þú nýja ljósmynd af skilríkjunum þínum skaltu hylja númerið með límbandi eða fingri þegar þú tekur myndina og passa að allar aðrar upplýsingar séu greinilegar. Ef þú hleður upp mynd sem þú ert með af skilríkjunum þínum skaltu breyta henni fyrst þannig að númer skilríkja sjáist ekki.

  Fyrir íbúa Þýskalands: Takið skýrt fram að um afrit af upprunalegum skilríkjum sé að ræða sama hvaða skilríkjum er bætt við. Það má gera með því að setja vatnsmerki eða eitthvað slíkt yfir skilríkin þar sem stendur „Airbnb copy“. Passaðu að allar upplýsingar sjáist áfram.

  Aðrar leiðir til að staðfesta á sér deili

  Í sumum tilvikum þarf mögulega ekki að setja inn opinber skilríki. Við munum geta staðfest að þú sért réttur aðili þegar þú bætir við nafni þínu að lögum og heimilisfangi (þetta ætti að vera sami staður og þú færð bankagögn eða reikninga frá veitufyrirtækjum). Við munum bera þessar upplýsingar saman við örugga gagnagrunna þriðju aðila.

  Hverju er deilt með gestgjafanum

  Ef þú þarft að framvísa opinberum skilríkjum getur verið að eftirfarandi verði deilt með gestgjafanum:

  • Eiginnafni á skilríkjunum
  • Hvort þú ert eldri eða yngri en 25 ára
  • Hvort skilríkjunum hafi verið bætt við
  • Notandamynd og -nafni

  Eftirfarandi verður aldrei deilt með gestgjafa eða neinum öðrum notanda Airbnb um þig sem gest:

  • Ljósmyndinni af skilríkjunum
  • Sjálfsmyndinni sem þú tókst sem hluta af staðfestingu á skilríkjum (ef beðið var um hana)
  • Heimilisfangi þínu

  Persónuvernd

  Persónuvernd skiptir okkur miklu máli. Upplýsingarnar, sem þú gefur upp við framvísun opinberra skilríkja, falla undir friðhelgisstefnu okkar og berast okkur og fara í gagnagrunna þriðju aðila með sömu dulkóðun og vefsetur nota til að senda kreditkortanúmer. Gagnagrunnar þriðju aðila meðhöndla upplýsingarnar í samræmi við samninga okkar við þessa þriðju aðila.

  Í Hollandi, Suður-Kóreu, Singapúr, Hong Kong eða Japan:

  Til að verja einkaupplýsingar þínar enn betur er mikilvægt að innlenda kennitala þín (BSN, RRN, NRIC, HKID, MyNumber o.s.frv.) komi ekki fram á ljósmyndinni af skilríkjunum þínum. Ef þú hleður upp kóresku kennivottorði eða ökuskírteini skaltu aðeins sýna fyrstu sex tölustafina (sem standa fyrir fæðingardag þinn og -ár) þar sem okkur ber að safna þessum upplýsingum í samræmi við regluverk.

  Takir þú nýja ljósmynd af skilríkjunum þínum skaltu sjá til þess að allar aðrar upplýsingar sjáist. Kennitalan er það eina sem ætti að hylja (ein leið til þess er að setja límband yfir númerið). Ef þú hleður upp mynd sem þú ert með af skilríkjunum þínum skaltu breyta henni þannig að númer skilríkjanna sjáist ekki.

  Við gerðum breytingar til að vernda betur kennitölu þína. Ef skilríkjunum þínum var bætt við fyrir dagsetninguna hér að neðan og númer skilríkja kom fram á ljósmyndinni er það allt í lagi. Við höfum þegar eytt myndinni af skilríkjunum varanlega eða hulið hluta hennar og þú þarft ekkert frekar að aðhafast. Ef skilríkjunum var bætt við eftir dagsetninguna geymum við myndina en höfum fjarlægt innlendu kennitöluna til verndar fyrir þig.

  • Holland, kennitala (BSN): 5. september 2017
  • Kórea, skráningarnúmer íbúa (RRN): 15. maí 2018
  • Singapúr, ríkiskennivottorð (NRIC)/önnur innlend kennitala: September 2019
  • Hong Kong, Hong Kong-kennivottorð (HKID): 1. október 2019
  • Japan, MyNumber/einstaklingsnúmer: 1. október 2019

  Vistun og eyðing ljósmyndar af skilríkjum þínum

  Vistun ljósmyndar af opinberum skilríkjum þínum er í samræmi við friðhelgisstefnu okkar þar sem farið er yfir það sem við gerum til að vernda upplýsingar þínar.

  Við mælum með því að taka ekki út ljósmyndina af skilríkjunum þínum. Ef þú gerir það verða allar bókanir sem eru ekki hafnar felldar niður.

  Þú getur þó fjarlægt ljósmyndina af skilríkjum þínum 90 dögum eftir að síðustu bókun þinni lýkur.

  Til að fjarlægja ljósmynd af skilríkjum þínum: Undir aðgangsstillingum, opnar þú persónuupplýsingar. Við hliðina á opinberum skilríkjum velur þú fjarlægja.

  Einnig er hægt að taka út notandamyndir en ekki sjálfsmyndina (ef beðið var um hana) sem þú tekur.

  Önnur notkun upplýsinga af skilríkjum

  Þegar þú og aðrir gestir og gestgjafar framvísið upplýsingum af skilríkjum eykur það traust innan samfélags Airbnb. Þetta gagnast okkur einnig við að gæta öryggis á Airbnb, berjast gegn svindli og fleira. Upplýsingar af skilríkjum er hægt að nota á ýmsan hátt til að ná þessu fram.

  Í fyrsta lagi getum við hjá Airbnb notað upplýsingar af skilríkjum til að auka vernd gesta og gestgjafa. Upplýsingarnar nýtast okkur til að staðfesta að allir séu þeir sem þeir segjast vera og geta haldið sviksamlegum einstaklingum betur frá Airbnb. Við getum einnig aukið aðgangsöryggi og staðfest betur að allir notendur Airbnb séu 18 ára eða eldri.

  Við gætum einnig veitt þjónustuveitendum okkar upplýsingar af opinberum skilríkjum, eins og fullt nafn, heimilisfang, fæðingardag og -ár, sé kveðið á um það í gildandi lögum, svo þeir geti borið upplýsingarnar saman við opinberar skrár um sakfellingar í refsimálum og skrár yfir kynferðisbrotamenn. Þessar athuganir munu einungis ná til notenda í Bandaríkjunum að svo stöddu. Þó að við teljum þessar athuganir gagnast við að koma í veg fyrir svik og misnotkun á þjónustunni eru þær ekki trygging fyrir því að samsipti við fólk sem bókar í gegnum Airbnb séu örugg og valdi engum vandræðum. Við biðjum ykkur um að kynna ykkur ítarlega tilkynningu okkar um takmarkanir sem eiga við um athuganir á forsögu og skráðum kynferðisbrotamönnum.

  Við gætum auk þess, sé kveðið á um það í gildandi lögum, veitt bönkum og öðrum fjármálastofnunum tilteknar upplýsingar af skilríkjum (en það gagnast þessum aðilum við að framfylgja ýmsum lögum um skatta, peningaþvætti og refsiaðgerðir) sem og löggæsluyfirvöldum (sem geta staðið í rannsóknum sem Airbnb þarf að koma að).

  Markmið okkar er að vinna náið með þessum stofnunum og uppfylla skuldbindingar okkar gagnvart lögum ásamt því að tryggja öryggi, friðhelgi og virðingu allra notenda Airbnb.

  Samanburður ljósmynda

  Ef þú þarft að taka sjálfsmynd munum við einnig bera þessa ljósmynd saman við opinberu skilríkin sem þú hefur framvísað. Þetta hjálpar okkur að staðfesta að þú sért réttur aðili.

  Samanburður á ljósmyndum getur gefið gagnlegar upplýsingar en samanburður á andlitum er ekki fullkomlega skilvirkur í öllum tilvikum. Skilvirkni samanburðar á andlitsdráttum getur verið mjög breytileg eftir hæfi og dómgreind þess sem fer yfir, gæðum og upplausn ljósmynda og hvort að verulegur munur sé á ásýnd einstaklingsins milli mynda (t.d. aldursmunur, breyting á þyngd eða annar klæðnaður).

  Því getur stundum verið að myndir „samsvari“ myndum sem eru í raun ekki af sama einstaklingnum eða að ekki sé hægt að greina að ljósmyndin sé af sama einstaklingnum. Einstaklingar, sem vilja sýna af sér sviksamlegt athæfi, geta jafnvel farið í kringum háþróuð og rækileg kerfi til að bera saman ljósmyndir sem eru lagðar fram til samanburðar.

  Við tökum hvorki ábyrgð á nákvæmni eða skilvirkni niðurstaðna fyrir samsvörun ljósmynda né lýsum neinu yfir um niðurstöðurnar. Þú ættir ekki að treysta því að samanburðarferli fyrir ljósmyndir tryggi auðkenni einhvers né að það tryggi að öruggt sé að eiga í samskiptum við einstaklinginn.

  Villugreining

  Ef þú átt í vandræðum geturðu kynnt þér hvernig opinberum skilríkjum er framvísað.

  Fékkstu þá aðstoð sem þú þurftir?
  Greinar um tengt efni